mánudagur, nóvember 28, 2005

Rammíslenskt

er eitthvað sem er rammíslenskt, en hvað skyldi það nú vera? Rammíslenskur matur þykir t.d. ekki alltof hollur eða góður, en er það rétt? Slátur, blóðmör, lifrarpylsa, súrmatur, reyktur matur, harðfiskur, úldinn matur, úldinn selur, hvalspik, úldin egg og hvað eina mætti nefna hér í þessu samhengi. Hvað fleira sem kalla mætti rammíslenskt? Svari hver fyrir sig á tímum geldhyggju, fjölmiðla- og alþjóðahyggju eða hvað má nú kalla allt þetta sem á að vera svo gott en hefur aðeins skapað vandamál, sem sömu hyggjur eru ekki færar um að leysa; því vandamál.

sunnudagur, nóvember 27, 2005

Ekkert

er í gangi, ekkert gerist í raun nema það að fleiri tré falla í tilefni jólanna og bókanna. Það tekur á að hlusta á gagnrýnendur og lesa dóma um flóðið. Halur telur gagnrýnendur vera farna að skipta bókum eftir kyni höfundar og brátt er því botninum náð. Nú er Halur að lesa aftur Paul Auster eftir langt hlé, átti tvær bækur ólesnar eftir hann í hillu, alltof smátt letur reyndar. Sagt hefur verið að lesa eigi bækur á sama hraða og þær hafi verið skrifaðar eða ritaðar. Hali lýst vel á slíkar hugmyndir enda með afbriðgum seinn að lesa "betri" bækur; les sömu setningarnar aftur og aftur, endurtekur sig í sífellu og finnst það bara í lagi. Margt annars sem framhjá færi. Hvernig færi fyrir þessum nokkrum gagnrýnendum sem lesa "allt" í flóðinu ef þeir notuðust við ofangreinda aðferð?

Halur kvað:
Enginn maður endist hér
að enda þessa vísu hér,
því er best að skála
með skáldinu Hála,

sem skammtar orðin handa mér.

Halur mælir annars með skíðagöngu á næstunni fremur en "streitumagajólasári".

föstudagur, nóvember 25, 2005

Margt

kom upp í huga Hals í dag er hann hugsaði til Georg Best (Georgs Bests) er andaðist um hádegisbilið og kom engum á óvart sjálfsagt. Sumt gleymist aldrei og allra síst það sem gott er þótt stundum megi halda að einungis hið slæma sitji eftir eða fyrnist eigi. Það er nefnilega ógleymanlegt að hafa horft á nokkrar ljósmyndir og stutt hreyfimyndaskot frá árdögum sjónvarpsins á Íslandi þar sem Georg Best lék listir sínar. Þá eru Hali sérlega minnisstæð mörg sólóin á hliðarlínunni, töffaralegt útlit sem virtist vera meðfætt, þótt einhverjir stælar hafi fylgt með. Á þessum tíma var ofgnótt og flæði sjónvarps og íþróttafrétta ekki orðið eins lágkúrulegt eða yfirgengilegt og nú er þar sem allt hverfur inní einhvers konar hringiðu gleymskunnar vegna magnsins, þráhyggjunnar. Fjármagnið var ekki alveg búið að eyðileggja íþróttirnar og á þessum tíma gátu úrslitin orðið óvænt oftar en ekki, sem vart gerist lengur. Halur minnist þess að hafa átt myndir af Best og sérlega minnisstæður er leikurinn við Benfica árið 1968, en það var til bók sem lýsti þeim leik með texta og svart-hvítum myndum. Best lék eitt aðal hlutverkið í þessum leik sællar minningar. Halur hefur lengi reiknað með að dagar hetjunnar írsku (Norður-írsku reyndar ef allt skal vera rétt) væru taldir í lifanda lífi, en telur hins vegar að hann sé í raun goðsögn frá landinu græna, allt er vænt sem vel er grænt (eins og Vinaminni!). Það er hins vegar svo að sjaldan er ein bokkan stök þar sem Írar eru saman komnir eða fara hjá og ekki gengur að transplantera þá alla með lukku. Skál fyrir Best!

miðvikudagur, nóvember 23, 2005

Hitti

Halur aldrei þessu vant mann á gangi nýverið, ekki þó hinn sama og ekur ljóslausri bifreið um vegi og vegleysur. Maður þessi vissi af áhuga Hals á kynlífsmálum en jafnframt að reynsla hans og geta væri verri en engin ef allt er með tekið og svo framvegis; vildi hann gefa Hali ráð með sögu þessari. Vildi hann þar og því ólmur segja Hali af konu, sem verið hafði þrígift, en eigi stundað kynlíf til þessa. Fyrsti maðurinn var of gamall sagði hún, annar var hommi og sá þriðji framsóknarmaður (skýrir sig sjálft).

Halur kvað í kjölfarið:

Kynlíf veldur kannski þér,
kveisusting og harmi,
en engan dráttinn öðlast hér
með endalausu jarmi.

Kona þessi mun enn vera á markaðnum og síðast fréttist af henni á Melrakkasléttu á leið austur fyrir í gljúfur.

þriðjudagur, nóvember 22, 2005

Sparnaður

er dyggð telur Halur, en fáir eru á sama máli. Gaman er að vita til þess að í útlöndum (Skotlandi) muni vera til a.m.k. einn veitingastaður, þar sem leyfilegt er að koma með sitt eigið áfengi á staðinn og drekka með matnum. Það yrði sennilega víða biðröð hérlendis ef þessi regla kæmist á, því verðlagning áfengra drykkja eða guðaveiga er með ólíkindum innanlands, en stundum eru þær sá þáttur sem setur punktinn yfir i-ið. Vatn er þó vökva best.

Af öðrum sparnaði má nefna að Halur hitti bónda fyrir nokkru sem er sérvitur mjög en glaðlyndur og sanngjarn. Hann mun eiga bíl og tjáði Hali að hann mundi aldrei aka með ljósin á, allt gert til þess að spara og var búinn að reikna hversu mikill sparnaður það yrði f. þjóðina ef allir hættu að nota bílljós. Hann notar varla ljós í myrkri nema neyddur til en enginn mun gera það svo auðveldlega. Halur rakst á ljóslausan bíl í ljósaskiptunum nýverið og taldi þar bílinn mannlausan, en viti menn, þar var vinurinn góði, sat undir stýri, annar aftur í, bíllinn í gangi en ljóslaus við þjóðveg nærri afleggjara. Hann virtist ekki á þeim buxunum að kveikja á ljósunum en nokkuð langa leið átti hann ófarna heim í myrkrinu sem var að skella á.

sunnudagur, nóvember 20, 2005

Sökum

þess að enginn hefir komið og trommað fyrir litla manninn í skúrnum, þá snýr Halur sér í hring og býður þeim er vilja hornbaðkar með nuddi til kaups á hálfvirði; fylgir með vængur fyrir sturtuna þannig að gólfið blotnar minna eða eigi. Karið er ónotað að öllu leyti nema því að Halur hefir einu sinni lagst þar votur til reynslu og ef e-ð er, þá ætti það að auka áhuga allra á þessu sérlega aðlaðandi kari með væng. Annars er nærri ómögulegt að koma út notuðum hlutum (baðkarið er ónotað!), allir vilja að því er virðist kaupa allt eða flest nýtt. Halur býst við sams konar áhugaleysi á karinu og trommunum, en innbyggð bjartsýni hans að vetri til, segir honum að eitthvað muni gerast í þessum efnum bráðlega. Það mátti sjá á köttunum í Vinaminni í dag að þeir eru bara nokkuð bjartsýnir og glaðir miðað við árstíma, sérlega Máni blessaður. Enda ekki skrítið eftir að hafa endurheimt "móður" sína úr æfingum einhverjum sem Halur kann engin skil á.

laugardagur, nóvember 19, 2005

Enginn

trommuleikari eða kennari enn, en það er eins við mátti búast. Það er þó alltaf tækifæri til að bæta um betur og það hefur iðulega gerst kraftaverk í þessum efnum sem öðrum. Eitt ánægjulegasta dæmið er Suður-Afríka; þaðan má sjá vörur hérlendis núorðið en aldrei áður, í þessu landi þar sem einn merkilegasti (og einn fárra) friðarsinni og frelsisgjafi síðustu aldar var loks leystur úr haldi. Þrautseigja og frækn þessa manns, Mandela er hann kallaður og nefndur, er með einstökum ólíkindum. Sumir rithöfundar hafa lýst afar vel og nærri of vel ástandinu þarna áður; einn þeirra er J.M. Coetzee, sem Halur hefir áður minnst á. Texti hans er svo nærgöngull við lesanda að nærri verður vart gengið án þess að "segja allt", en það gerir hann eigi, bendir á, segir frá, gefur hugsanir, sumt endar ekki eða endar illa, margt er ekki mögulegt, flest í 3ju persónu í síðustu bók er Halur las eftir hann í mörgum lotum, merkilegt að þessi maður hafi yfir höfuð komist á legg miðað við ástandið í æsku. Hali finnst það flokkast undir kraftaverk að þessi rithöfundur hafi komist úr bakgarði Suður-Afríku (er ekki blökkumaður eins og flestir sjálfsagt vita) , alla leið til Nóbels; það gefur Hali einnig von um að trommukennari birtist í bílskúrnum við tækifæri. Ennfremur má nefna, að það er merkilegt að á Íslandi megi heyra reggí spilað með flottu tempói og alvöru, eina sem vantar er "betri söngur", spilið ágætt og þétt.

föstudagur, nóvember 18, 2005

Auglýst

er eftir trommukennara hér með á netinu; það virðast ekki vera til trommuleikarar á Akureyri, þessum mikla tónlistarbæ ef e-ð er að marka sögusagnir og auglýsta tónleika. Trommuleikari með einhverja grunnþekkingu er það sem sóst er eftir; Halur getur ekki slegið á trommur þannig að aðrir hafi gagn af eða hljómsigur. Annars er útgefið tónlistarefni á Íslandi allt og ekkert. Inn á milli lágkúrulegrar útgáfu leynist nokkuð af hljómsigrum. Þetta hefur nærri gengið fram af Hali og hann óskar aftur eftir trommukennara í skúrinn hið snarasta. Greiðslur verða eftir atvikum og því sem hugmyndir gefa tilefni til, jafnvel unnt að fá góða skoðun aukalega. Annars segja kunnugir að bærinn hafi náð að reka flesta tónlistarmenn með hæfileika í önnur byggðalög og sveitir, þannig mun það nú vera. Í dag er miklu minna mál en áður að verða sér út um hljóðfæri og áhuginn leynist víða. Halur hefur alla tíð átt sér þann draum að spila í hljómsveit, en það er eins með þennan draum og marga aðra, hann verður einungis minning um hljóm. Halur heyrði í afar þéttu bandi á heimleið í kvöld, sambland af blæstri, sígaunum, slætti og rokki, nokkuð sem sökkar feitt. Platan var þó ekki til í búðinni, var víst Nix Nolte ef Halur man rétt.

fimmtudagur, nóvember 17, 2005

Gamlingjarnir

verða alltaf yngri og yngri en margt er öfugsnúið í þessum heimi sbr. neðangreint lesefni úr blaði dagsins:
"............segir að það hafi dregist saman að fólk komi með tæki í viðgerð. Það er þó alltaf eitthvað en það er aðallega eldra fólk, þ.e fjörutíu ára og eldra, sem kemur með tæki."

Sumir eru því orðnir ansi gamlir, en í því starfi sem vinur Hals sinnir voru menn gamlir um og yfir sjötugt f. 25 árum síðan, en smám saman hafa menn yngst (elst!) þannig að gamlingjar eru þeir sem eru komnir á grafarbakkann eða honum nærri. Þannig að allt er í heiminum afstætt. Ekki skrítið að "ungt fólk" telji alla aldraða sem komnir eru um og yfir fertugt; það hendir of mörgu, kaupir ónauðsynlega hluti, flest sem keypt er í dag endist stutt og verður fljótt gamalt. Það borgar sig ekki að baksa með gamlingjana.
Halur kvað:

Geng ég fram á grafarbakka
og gleymi ekki lífi að þakka,
en fyrr á árum voru heldri
menn aðeins eldri
og líktust eigi 40 ára krakka.

Ekki sýnist aldur minn hár,
en ýmsir að honum draga dár.
En veit að margir
verða þá argir,
ef veitast aðeins 40 ár.

miðvikudagur, nóvember 16, 2005

Skemmtiefni

er af ýmsum toga og þarf eigi að leita langt yfir skammt til að finna bitastætt efni. Eitt lítið dæmi er þetta úr blöðum dagsins:
"Meiri líkur eru á að börn sem fædd eru á fyrstu þrem mánuðum ársins fái háar einkunnir en þau sem fædd eru á þrem síðustu mánuðunum, samkvæmt niðurstöðum norskrar rannsóknar. Segir einn höfunda rannsóknarinnar það hafa komið sér verulega á óvart hvað munurinn væri greinilegur. Í rannsókninni var ekki kannað hvað kunni að valda þessum mun.
Nemendur sem fæddir eru í janúar, febrúar eða mars fá að jafnaði hærri einkunn en önnur börn. Einnig kom fram í rannsókninni að drengir sem fæddir eru seint á árinu eiga erfiðara með að eignast vini. Segja höfundar rannsóknarinnar að nauðsynlegt sé að rannsaka þessi mál frekar."

Þetta er ein af ástæðum þess að Halur hefir enn "meiri trú" á enter-takka vísindamönnum nútímans, sem minna á alkóhólista er veit ekki hvort hann er á leiðinni í eða úr meðferð, í eða á fyllerí með félögunum. Ölvunarakstur vísindanna er ótrúlegur.

sunnudagur, nóvember 13, 2005

Mamuli

er fyrra orðið í nýju heiti sem flestir þurfa að leggja á minnið á tímum græðgi, frægðar og glamúrljósa. Á tímum þar sem íþróttamenn hafa farið yfir strikið í græðgi, íþróttamenn sem eru þekktari af getuleysi en nokkru öðru eftir að hafa lent samningum með núllum sem Halur kann ekki nefna eða telja. Því var það afar ánægjulegt að fara 30-40 ár aftur í tímann og sjá íþróttamenn frá gamla Sovétlýðveldinu (lýðveldi kannski varasamt orð ef trúa skal einhverju af sumu sem sagt hefir verið, en mannkynssagan er mismikil eða hrein lygi eftir atvikum, sérlega sú sem skráð er og á að vera sönn) sem voru í algjörri mótsögn við útlitsdýrkun nútímans. Aukalega voru þeir eins og í leikriti absúrdismans, það vantaði reyndar í sum hlutverkin, þreytulegir og sennilega fyrst og fremst í einhvers konar orlofsför sem aðrir greiddu, þ. e. mótherjarnir. Grín verið gert af þessu liði sem í raun var sigurvegarinn og lék á alla mótherjana á markaðstorgi frægðar og umtals. Þessir leikmenn voru ekki í blöðunum eða forsíðum neins staðar. Halur sá þessa menn og sá grínið sem talað hefur verið um og sjálfsagt er eitthvað rétt í öllu sem sagt er. Þeir voru sannarlega ánægðir þegar blásið var til leikhlés en þá tóku þeir sér barasta sæti á hliðarlínunni og hvíldu sig í 10 mínútur, það tók því ekki að vera að fara inn í búningsklefann og þreyta sig á þeirri leið; enn eitt atriðið hjá þeim sem á sér engu samlíkingu í nútímanum. Seinna orðið er Tiblisi; Mamuli Tiblisi er orðið hugtak sem gott er að minnast í nútímanum, þar sem allir ganga með gulleyru.

laugardagur, nóvember 12, 2005

Langtum

betri helmingur vinar Hals á ammæli, afmæli í dag; aldurinn enginn, áferðin áfram eins og á gyðju, það sá Halur í morgunsárið er hann laumaðist með frúnni í sund. Hal vantar reyndar bæði fætur og augu til slíkra ferða, líkist meira hundi á sundi en manni í lauginni, skýlan eldgömul og upplituð, gamli fánaliturinn, sem minnir Hal aftur á mikilvægi þess að íslenska þjóðin sé frjáls og segi sig úr sambandi við forsetaembættið. Sennilega eitt brýnasta verkefni landsins. Engin leiðindi hér, bara til hamingju með daginn, hin ágætasta húsfreyja í Vinaminni sem ljóst má vera, að mikið er á lagt í sambúðinni við suma. Halur mun halda sig afsíðis í dag enda eru sumir bestir í skugga.

föstudagur, nóvember 11, 2005

Einfeldnin

hefir iðulega komið Hali í koll eða jafnvel komið aftan að honum. Halur minnist þess tíma er hann heyrði fyrst að ekki mætti brjóta saman blað sem einhver texti hefði verið skrifaður á, t. d. venjulegt A4 blað, slíkt ætti aldrei að gera þar eð með því væri verið að draga úr virðingu fyrir upphaflegu efni og útliti blaðsins. Blaðið ætti að halda sér. Hið sama gilti um gamla hluti og gildir enn. Þetta kom Hali fyrir hugskotssjónir er hann var á leið í nytjagám með nokkra hluti sem vel höfðu gagnast honum gegnum árin og jafnvel utanlands. Er að gámnum kom, þá sá Halur að gámur var lokaður með hengilás og ætlaði frá að hverfa. Kom þá þar að starfsmaður er vildi skoða það sem á kerrunni var (kerra fengin að láni hjá Jóni á Móti og honum færðir nokkrir taðreyktir fiskar fyrir "öll lánin"). Halur bauð allt er þar var á kerru í gáminn. Maðurinn leit á hlutina og á örskoti dæmdi þá alla úr leik. Þetta fannst Hali skrítið enda einfaldur maður. Hluti þessa hafði hann eigi lengur not fyrir og erfitt að geyma svo vit væri í út frá rúmmálsfræðilegum vangaveltum. Hann taldi þá gagnast öðrum ágætlega. Þetta verður sennilega til þess að Halur muni safna að sér enn fleiri hlutum og munum fremur en að koma að læstum nytjagámi og hitta þar fyrir dómara gámanna. Það er sjálfsagt önnur saga hvers vegna gámurinn var lokaður, sennilega veðri um að kenna.

þriðjudagur, nóvember 08, 2005

Akureyri eða

Marseilles, París norðursins eða París bara - er ekki vitað. Hvað gerist á Akureyri sem gæti áður hafa gerst í Marseilles. Kannski fiskisúpa. Lýðræðið er úrkynjaðasta bykkjan í veröldinni, nema hvað! Lýðræðið er með veiklulegar tilraunir til réttlætis og jafnréttis, en á meðan sefur virkjanastefnan værum blundi á hálendinu og þarf ekkert að óttast. Löngu ljóst að án ofbeldis næst enginn árangur, það sannar virkjanastefnan. Sama er annars staðar raunin hvert sem litið verður. Halur er engin prófkjörsleggjari eða hvað annað sem leggur línurnar. Halur veit þó um prófkjörsleggjara, menn sem fara og hafa lýðræðið í frammi eða hvað? Óminnishegrinn er þó sennilega algengasta fuglategundin í lýðræðisflokkunum, aðflugið er skaddað og blindflug ómögulegt.

sunnudagur, nóvember 06, 2005

Af tröppum

Háar tröppur eru sérkennilegar. Víða eru háar tröppur. Ef vel er að gáð eru háar tröppur nokkuð sem einkennir mörg eldri hús til sveita, er byggð hafa verið á Íslandi gegnum tíðina. Ekki skrítið að Íslendingar byggðu háreist hús eftir að hafa verið ofaní moldinni öldum saman; mismoldarmiklar aldir, misjafnlega mikil aska milli gosa sem fauk inn í hýbílin. Gjarnan hús með hálfgerðum kjallara og síðan þessar háu tröppur á aðalhæðina, næsta hæð jafnvel einnig byggð að hálfu eða öllu leiti; ris eða álíka. Tröppur sem smám saman brotna niður eins og líkamar þeirra er byggðu húsið; ný steinsteypa ekki á allra færi að útvega fremur en nýtt byggingarefni sálar eða líkama, allir tala um sál og líkama og því er þetta haft svona. Háar tröppur eru sennilegast arfur frá fyrri tíð, arfur sem segir að tröppurnar eigi að vera háar þannig að ekki flæði inn í næsta flóði, flæði um öll híbýlin, moldarfljót í gömlum torfbæ. Í Vinaminni eru háar tröppur í austurátt, inngangur í húsið. Háar tröppur voru og eru einnig góðar til að horfa yfir landareignina er út var komið eða farið. Eins er með sálina, þar eru margar háar tröppur sem eru einhvers konar varnarhættir, en engar sálartröppur þekkir Halur þar sem unnt er líta yfir sálarlífið.

fimmtudagur, nóvember 03, 2005

Vinir

koma víða að, en sumir eru tryggari en aðrir hvað skrif snertir á bloggsetri þessu, sem fer bráðlega að verða eins og bærinn undir Steinahlíðum. Það hryggir Hal að vita af erfiðleikum í suðuramti hjá bóndanum Æri, bónda og sjávarmanni í anda, Ólafsfjarðargoða. Halur þakkar góð en vart réttmæt orð í sinn garð frá Æri sem og athgasemdir frænda úr Húsum Grundar, allt er réttmætt þar. Eins og bóndinn undir Steinahlíðum sem leitaði fósturjarðinnar að nýju, þá snúa allir fyrr eða síðar til æskustöðva í einni eða annarri mynd. Sökum minninga Æris frá tímum "ileus gravis" kvað Halur þetta ólíki:

Raunagóð ráðin minnka harm,
en reyndar heyrist einstaka jarm,
er endinn stíflast,
þá enginn fíflast
með þinn endaþarm.


Ógleði og andskotasveimur í Æri fékk þetta:

Sút og sorg sækir að Æri
og sér´ann ei tækifæri.
En ef vel er að gáð,
er óbrigðult ráð,
að eltast við konulæri.